Fimmtudagur, 27. ágúst 2009
Ég varaði við græðigisvæðingunni árið 2000 með grein í Morgunblaðið.
Árið 1999 og árið 2000 sá ég mig knúinn að skrifa greinar í Morgunblaðið þar sem ég varaði landsmenn við þeirri græðgisvæðingu sem þá var að byrja að tröllríða Íslandi með þeim skelfilegu afleiðingum sem við búum við í dag.
----------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Aðsend grein sem birtist í Morgunblaðinu í febrúar árið 2000.
Ég vil biðja fólk að standa vörð um mannréttindi sín, segir Árelíus Þórðarson, og berjast gegn öllu því óréttlæti sem yfir það er látið ganga.
Varúð
Með sama stjórnarfari er lýðræði þjóðarinnar í stórhættu, hagsmunir auðvaldsins eru látnir ráða á kostnað almúgans í landinu. Þannig stefnir í að eignaskiptingin verði eins og í Brasilíu, þar sem 7% þjóðarinnar eiga allt en 93% þjóðarinnar minna en ekki neitt. Þá geta landsmenn hugsað um það hvort ekki sé betra að flytja til Kanaríeyja. Svo er komið að forseti þjóðarinnar sá ástæðu til að benda á það við setningu Alþingis að hætta væri á, með sömu þróun, að valdið færðist út fyrir sali þingsins.Á dögum Sovétríkjanna var til stjórntæki sem nefndist heilaþvottur, þar sem almúginn var mataður af því sem ráðamenn í Kreml vildu láta heyrast. Oft hef ég haft það á tilfinningunni að verið sé að beita þessu stjórntæki hér á okkar litla Íslandi. Sem dæmi má nefna hina svokölluðu sáttanefnd, hún var kosningaloforð stjórnarflokkanna fyrir síðustu kosningar, sem mataði almenning á því að reyna ætti að ná sátt um stjórn fiskveiða. Þessi nefnd var sjónarspil stjórnarflokkanna til að villa um fyrir almenningi í landinu. Að mínu viti mun aldrei nást sátt úr þessari nefnd.
Samningar
Nú eru samningar á næsta leiti og vil ég skora á landsmenn að styðja við bakið á verkalýðshreyfingunni í komandi kjarasamningum þannig að þjóðarsátt verði um það að lægstu launin hækki mest á kostnað þeirra sem hærri launin hafa og þrælahald vegna láglaunastefnu atvinnurekanda og ríkisstjórnarinnar verði afnumið. Það er ekki líðandi að horfa upp á fólk allt í kring um sig, sem á ekki til hnífs og skeiðar vegna þess að hagsmunir þessa fólks eru látnir víkja fyrir peningaöflunum í landinu. Við verðum að stöðva þá þróun að flutt er inn vinnuafl frá vanþróuðu ríkjunum til að halda launum verkafólks niðri. Hvernig er komið fyrir farmannastéttinni?Að öllu óbreyttu munu mörg heimili leysast upp á næstu árum vegna þess að stór hluti almennings í landinu hefur útborguð laun sem jaðra við fátæktarmörk og getur ekki staðið við skuldbindingar sínar, þar sem skuldir heimilanna hafa meira en tvöfaldast á síðustu árum. Að lokum langar mig að biðja fólk að standa vörð um mannréttindi sín og berjast gegn öllu því óréttlæti sem yfir það er látið ganga. Einnig að standa vörð um lýðræði lands og þjóðar með því að láta skoðanir sínar í ljós.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Lífstíll, Viðskipti og fjármál, Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.