Hugleiðingar eftir Hamborg maraþonið. Nú er það hálft í Reykjavík.

Nú er komið að næsta hlaupi og skal stefnt á hálft þon.  Besti tími minn í hálfu er 1.48.10 og er markmiðið að fara undir 1.45 klst.

Í apríl síðastliðnum skrifaði ég smá hugleiðingar á Hlaup.com eftir að hafa tekið þátt í frábæru hlaupi í Hamborg.

Frábært að hlaupa í Hamborg

25.4.2010
Árelíus Þórðarson
Eftir að hafa verið fitubolla í um 20 ár og þrjátíu og fimm kílóum þyngri en ég er í dag ákvað ég að nú væri nóg komið enda blóðþrýstingurinn orðinn mjög hár og ég á leiðinni að springa. Trúnaðarlæknir míns fyrirtækis hvatti mig mikið að gera eitthvað í mínum málum. Í september 2008 ákvað ég að byrja á því að fara í stutta göngutúra og stóð ég mig vel.  Fór fyrst um sinn í hálftíma túra og tveim mánuðum seinna var ég byrjaður á klukkutíma göngutúrum.  Í desember var ég byrjaður á að hlaupa á milli ljósa staura og ganga þess á milli.  Um miðjan janúar 2009 keypti ég mér árskort í World Class og setti mér mitt fyrsta markmið að taka þátt í hálfmaraþoni um vorið. Ég æfði eins og skeppna og árangurinn lét ekki á sér standa. Ég tók þátt í vormaraþoni FM og náði frábærum tíma fyrir byrjenda eða 1.48.15 sem ég var himin lifandi með.  Ég var ákveðinn eftir þennan árangur að setja markið hátt og ætlaði að taka þátt í heilu Reykjavíkurmaraþoni en það gekk ekki upp þar sem ég í byrjun júni tognaði illilega í hásinninni og átti í miklu basli með að ná mér góður af þessum meiðslum og átti ég meira og minna í þessum meiðslum fram að áramótum 2010,
Milli jóla og nýárs ákváðum ég og Raggi bróðir að við skyldum setja okkur markmið og taka þátt í Hamborg maraþoninu.  Ég byrjaði á því að hjóla og stundaði reglulega teygjuæfingar, sérstaklega með áheyrslu á kálfana sem ég var veikastur fyrir.  Síðan styrktist ég og æfði grimmt og gat farið að hlaupa að einhverju viti.  Einnig fór ég í nokkra yoga tíma sem ég hafði gott af þar sem maður fékk góða slökun og lærði að nota hausinn.
Við bræður erum keppnismenn og var það mitt mottó að reyna að hanga í Ragga enda tel ég Ragga einn efnilegasta hlaupara landsins miðað við aldur og tel ég hann ef hann æfir vel fram að næsta markmiði þá mun hann hlaupa maraþonið á innan við 3.10 og verður það mitt markmið að sjálfsögðu það að halda í við hann.
Að hlaupinu sjálfu í Hamborg er um það eitt að segja að umgjörðin og stemmningin var frábær.  Við vorum eins og nýgræðingar.  Sáum að það var búið að setja F á númerin okkar og við fórum inn fyrir girðinguna þar sem F fólkið var.  Nokkrum sekúndum þegar ræst var tókum við eftir manni með blöðru sem stóð á tími 4.15.  En við ætluðum að vera á blöðru sem stóð á 3.45.  Þar sem við erum reynslulitlir í okkar fyrsta hlaupi urðum við að kyngja þessu og byrja aftarlega með hlaupurum sem voru alltof hægir miðað við það sem við vildum hlaupa.  Fyrsti eini og hálfi tíminn fór í sikk sakk hlaup til að komast fram úr þar sem ekkert gliðnaði með hlaupurum enda 30 þúsund hlauparar að hlaupa.  Um miðblik hlaupsins var orðið svakalega heitt og hitinn kominn yfir tuttugu stig.  Við stoppuðum á hverri vatnstöð drukkum eitt og hálft glas og skvettum einu og hálfu glasi yfir hausinn á okkur.  Mér leið rosalega vel fyrstu 35 km en eftir það var eins og hendi væri veifað,  lappirnar orðnar þungar en samt fann ég ekki fyrir þessum svokallaða vegg.  Raggi seig aðeins fram úr mér á loka kaflanum en ég var ákveðinn fyrir hlaupið að komast í mark með fulla rænu og geta labbað um kvöldið og fengið mér bjór.
Raggi fékk tíman 3.38 og ég 3.40 sem ég tel ásætanlegt miðað við okkar fyrsta hlaup.  Tíminn á hlaupa úrinu mínu stóðst vel en vegalengdin sýndi yfir 43 km en það er líklegast vegna þess að við þurftum að skjáskjótast fram úr mörgum hlaupurum.
Eitt vill ég segja að lokum.
Í mörg ár keyrði ég fram hjá hlaupurum og skildi aldrei hvernig í andskotunum þeir nenntu að hlaupa svona eins og bjánar!
Hlaupin hafa gefið mér nýtt líf og erum við bræður að gæla við næsta langtímamarkmiðið sem er  London maraþonið á næsta ári og er mitt markmið 3.15-3.30 sem ég veit að ég næ ef ég æfi skynsamlega og forðast meiðsli.
Ég vil þakka þeim fjölmörgu hlaupurum sem við höfum haft aðgang að en þeir eru svo margir að vonlaust er að telja þá upp.
Árelíus Þórðarson

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband